SÓLÓN ÍSLANDUS

SH-8839-68 Sölvi Helgason eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig, er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið. Lífshlaup Sölva Helgasonar (16. ágúst 1820 – 27. nóvember 1895) hefur löngum höfðað til ímyndunarafls fólks. Hann var þjóðkunnur alþýðulistamaður og flakkari, heillandi utangarðsmaður sem fór óhefðbundnar leiðir á lífsferli sínum og oft á svig við viðteknar reglur og lög. Hann var sjálflærður fræðimaður en líka kenjóttur sérvitringur. Þrátt fyrir að vera misskilinn af samferðarfólki sínu efaðist hann sjálfur aldrei um eigið ágæti eins og þessi vísa hans vitnar til um:

Ég er gull og gersemi,

gimsteinn elskuríkur.

Ég er djásn og dýrmæti,

Drottni sjálfum líkur.

250px-Sölvi_Helgason,_minnismerki

Sölvi fæddist í Skagafirði, sonur fátækra foreldra. Þegar Sölvi var fjögurra ára missti hann föður sinn og frá sex ára aldri var hann vistaður á hinum og þessum bæjum í sveitinni, án móður sinnar. Móðir hans dó svo þegar Sölvi var fjórtán ára. Um tvítugt fór hann að flakka um landið. Það var þó ekki einfalt fyrir hann því um miðja 19. öld voru reglur um vistarskyldu í gildi og var fólki bannað að ferðast um nema það hefði reisupassa eða vegabréf, útgefið af sýslumanni. Af þeim sökum lenti Sölvi nokkrum sinnum í vandræðum. Árið 1843 var hann tekinn fastur í Staðarsveit á Snæfellsnes þar sem vegabréfið sem hann var með þótti í meira lagi torkennilegt. Þar var ekki eingöngu nafn sýslumannsins sem skrifaði undir vitlaust skrifað heldur innihélt passinn einnig langa upptalningu á ótrúlegum mannkostum Sölva. Var lítið fyrir Sölva að gera en að viðurkenna að hafa falsað passann og fyrir það var hann dæmdur af hæstarétti til að hljóta 27 vandarhögg og 8 mánaða gæslu yfirvalda.

Árið 1850 var Sölvi aftur dæmdur til að hljóta vandarhögg fyrir flakk og lausamennsku en 1854 til þriggja ára betrunarvistar í Kaupmannahöfn fyrir að virða ekki vistarband og að hafa sennilega stolið hinu og þessu, aðallega bókum. Árið 1858 kom Sölvi aftur til landsins og þegar hann ræddi við fólk um dvöl sína í Danmörku talaði hann alltaf eins og hann hefði verið þar frjáls maður og hlotið hinn mesta frama. Eftir heimkomuna hélt Sölvi áfram að flakka um, mála, stunda vísindarannsóknir sem flestir tóku þó lítt alvarlega og skemmta fólki með sögum sínum. Sölvi  eignaðist dótturina Stefaníu Kristínu með Júlíönu Sveinbjörnsdóttur, sem var niðursetningur, fötluð og af fólki talin vitskert.

Sölvi ferðaðist alla tíð fótgangandi um með allt sitt hafurtask, bækur og málunargræjur á bakinu. Peninga átti hann ekki en sem þakklætisvott fyrir gistingu skildi hann stundum eftir sig blómaflúraða mynd. Sölvi var alltaf að mála myndir og skrifa eitthvað, bæði upp úr sjálfum sér og þýðingar á verkum erlendra meistara. Þó hafði hann aldrei farið í skóla. Myndir Sölva eru oft fínlegar, með fagurlega dregnum línum og ótrúlega vönduðum litum miðað við hvaða aðstæður þær hafa verið teiknaðar. Margar af myndum og ritgerðum Sölva hafa varðveist og eru í geymslu Þjóðminjasafns Íslands og á Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Það er til heiðurs minningu alþýðulistamannsins Sölva Helgasonar sem við köllum þennan mysudrykk með handtíndum íslenskum berjum og jurtum Íslandus. Mynd á umbúðum á flöskum er unnin uppúr mynd Sölva í eigu Þjóðminjasafns Íslands og birt með leyfi þess.

Árið 1995 var Sölva reistur heiðursminnisvarði, eftir Gest Þorgrímsson myndhöggvara í Lónkoti í Skagafirði. Það fer vel á því að í Lónkoti er rekin heimagisting og sælkeraeldhús með sérstöðu vegna skapandi meðhöndlunar og framsetningu staðbundins og árstíðabundins hráefnis úr matarkistu Skagafjarða, svo sem fisk úr firðinum, fugl úr bjarginu, grænmeti úr ræktun staðarins, aðalbláber úr berjalandi Lónkots og jurtir og grös úr náttúrunni.