REKJANLEIKI

Íslandus er búinn til úr staðbundnum íslenskum hráefnum. Mysuna fáum við frá Erpsstöðum í Dalasýslu en þar reka hjónin Þorgrímur Einar Guðbjartsson  og Helga Elínborg Guðmundsdóttir  kúabú með  60 mjólkurkúm, auk annarra gripa. Ábúendur Erpsstaða framleiða undir merkinu Rjómabúið Erpsstaðir ehf gamaldags skyr, tvær tegundir af ostum, margar tegundir af ísum og skyrkonfekt, sem var þróað og hannað á námskeiðinu Stefnumót hönnuða og bænda á vegum Listaháskóla íslands í samstarfi við Þorgrím og Helgu. Við skyrgerðina fellur mysa til sem aukaafurð, sem við síðan nýtum við framleiðsluna á Íslandus.

Berjasaftir, jurtir og fjallagrös fáum við hjá Íslenskri hollustu, fyrirtæki í eigu Eyjólfs Friðgeirssonar, líffræðings. Eyjólfur er frumkvöðull á sviði notkunar á hráefnum úr íslenskri náttúru. Hann hefur áralanga reynsu af hráefnisöflun, hefur komið fjöldamörgum nýjum íslenskum vörum á markað og lagt sitt að mörkum til að endurvekja þjóðlega íslenska matargerð.

Íslensk hollusta framleiðir nokkra tugi vara, s.s. jurtate, krydd, sósur, osta, snakk, kryddlegin söl, berjasaft, olíur, krem og baðefni.

Íslandus er framleiddur af Kruss ehf í matarsmiðju sem rekin er af Matís. Í matarsmiðjunni fáum við aðgengi að vottuðu eldhúsi og öllum nauðsynlegum tækjum til framleiðslunnar. Fyrsta árið framleiddum við  í matarsmiðjunni á Flúðum en frá desember 2014 fer framleiðslan á Íslandus fram í höfuðstöðvum Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík undir starfsleyfi  frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.