Íslandus inniheldur hágæða hráefni úr íslenskri náttúru sem hafa verið notuð í matargerð og til lækninga frá því að land byggðist. Bláber og krækiber eru auðug af C og E vítamínum og hafa mikla andoxunarvirkni. Fjörugrös eru rík af A vítamínum, joði og próteinum. Fjallagrös og birki eru talin bólgueyðandi og blóðberg krampastillandi. Það er einnig almenn vitneskja að mysa er holl. Mysuprótein eru í mjög háum gæðaflokki og innihalda lífsnauðsynlegar amínósýrur. Mysa er auðug af B2 og B5 vítamínum, sem eru verðmæt næringarefni. Rannsóknir hafa sýnt að mysa hefur ýmsa lífvirka eiginleika, þar má nefna andoxunarvirkni og blóðþrýstingslækkandi áhrif.
Yfir tífalt hærra magn virkra andoxunarefna (pólýfenóla) en í öðrum berjadrykkjum og ávaxtasöfum
Margvíslegir neyslumöguleikar
Við mælum með því að Íslandus sé drukkinn óblandaður, sem heilsuskot og fordrykkur, eða út í smoothies og kokkteila. Það er einnig mjög gott að frysta Íslandus og hafa sem klaka. Börn elska Íslandus frostpinna. Það er gaman að geta gefið börnum nammi sem þeim finnst gott og við vitum að er hollt. Íslandus er tilvalinn matarminjagripur fyrir erlenda ferðamenn.
Vistvæn verðlaunahugmynd
Íslandus sigraði í Ecotrophelia samkeppni háskólanema sem vistvænasta og vænlegasta matvaran 2012. Mysa er vannýtt afurð og með því að nota mysu í stað þess að henda henni komum við í veg fyrir ofauðgun í vötnum og ám. Við leggjum áherslu á vistvæna framleiðsluhætti og með notkun á íslenskum hráefnum komum við í veg fyrir mengun vegna flutninga yfir hafið.
Innblástur okkar
Íslandus er nefndur eftir einum frægasta alþýðulistamanni Íslands, Sólón Íslandus, sem var listamannanafn Sölva Helgasonar (1820-1895). Sölvi var heillandi utangarðsmaður með háleitar hugmyndir um sjálfan sig þrátt fyrir að vera fátækur flakkari alla sína ævi. Á ferðum sínum þvers og kruss um landið er ekki ósennilegt að Sölvi hafi þegið mysusopa hjá bændum og eflaust hefur hann nýtt sér plöntur til matar og unnið úr þeim liti fyrir málverk sín.